Noregur vann stórsigur á Íslandi

Heiðar Geir Júlíusson er í byrjunarliði Íslands.
Heiðar Geir Júlíusson er í byrjunarliði Íslands. mbl.is/Friðrik

Lið Íslands og Noregs skipuð leikmönnum 21 árs og yngri áttust í kvöld við á Vodafonevellinum að Hlíðarenda.  Leiknum lyktaði með 4:1 sigri Norðmanna. Fylgst var með leiknum í textalýsingu hér á mbl.is.

Íslendingar hafa byrjað leikinn ágætlega og eru ívið meira með boltann án þess þó að hafa skapað hættuleg færi á upphafsmínútunum.

Norðmenn fengu gott færi á 9. mínútu en Atli Jónasson fór í vel heppnað úthlaup og náði til boltans.

Norðmenn komust yfir eftir um hálftíma leik með marki Kevins Larsens. Hann fékk sendingu inn fyrir sofandi vörn íslenska liðsins og skoraði þrátt fyrir að Atli Jónasson væri nálægt því að verja.

Hallgrímur Jónasson átti langhættulegasta færi Íslendinga undir lok fyrri hálfleiks þegar hann skallaði að marki en Norðmenn björguðu á marklínu.

Staðan í leikhléi var 0:1 fyrir Noreg í tilþrifalitlum leik. Íslendingar gerðu tvær breytingar í leikhléi, út af fóru Arnór Sveinn og Hallgrímur en inn á komu þeir Haukur Páll Sigurðsson úr Þrótti og Skúli Jón Friðgeirsson úr KR.

Varamaðurinn Vidar Nisja kom Noregi í 2:0 strax á 1. mínútu seinni hálfleiks þegar hann skoraði með skoti úr vítateignum eftir hornspyrnu.

Ísland gerði þrefalda skiptingu eftir klukkutíma leik. Inn á komu Jón Vilhelm Ákason, Rafn Andri Haraldsson og Guðmundur Pétursson, en út af fóru Heiðar Geir, Guðjón og Matthías fóru út af.

Á 68. mínútu fór Haukur Páll aftur út af vegna meiðsla en inn á kom Hafþór Ægir Vilhjálmsson.

Á 70. mínútu kom markvörðurinn Ögmundur Kristinsson inn á fyrir Atla. 

Á 75. mínútu átti Birkir Bjarnason hörkuskot eftir hornspyrnu en boltinn fór af varnarmanni yfir markið. 

Fimm mínútum fyrir leikslok komust Norðmenn í 3:0 með marki Tore Andreas Gundersen úr vítaspyrnu.

Í uppbótartíma skoraði Arnar Försund glæsilegt mark með þrumuskoti beint úr aukaspyrnu. Boltinn hafnaði uppi í hægri markvinklinum og staðan 4:0.

Jón Vilhelm Ákason minnkaði muninn fyrir Ísland á lokaandartökum leiksins með góðu skoti úr teignum en þar við sat. 

Lið Íslands:

Markvörður: Atli Jónasson (Haukum).

Varnarmenn: Arnór Sveinn Aðalsteinsson (Breiðabliki), Heimir Einarsson (ÍA), Hólmar Örn Eyjólfsson (HK), Hjörtur Logi Valgarðsson (FH).

Miðjumenn: Heiðar Geir Júlíusson (Fram), Hallgrímur Jónasson (Keflavík), Matthías Vilhjálmsson (FH).

Sóknarmenn: Birkir Bjarnason (Bodö/Glimt), Guðjón Baldvinsson (KR), Jóhann Berg Guðmundsson (Breiðabliki).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert