Ótrúleg saga framherja Danmerkur

Nadia Nadim svekkt eftir úrslitaleik EM.
Nadia Nadim svekkt eftir úrslitaleik EM. AFP

Hin 29 ára gamla Nadia Nadim, framherji danska landsliðsins í knattspyrnu og liðsfélagi Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá Portland Thorns, á ansi áhugaverða sögu að baki. Danska liðið kom á óvart á mótinu og komst alla leið í úrslitaleikinn þar sem það tapaði fyrir Hollandi. Nadim skoraði tvö mörk á mótinu, þar af eitt í úrslitaleiknum, og vakti frammistaða hennar athygli.

Nadia fæddist í Afganistan en hún flúði ung til Danmerkur. Pabbi hennar, Rabani, var hermaður í Afganistan, en hann var myrtur þegar hún var aðeins tíu ára. Hann skildi eftir eiginkonu og sex dætur. Stúlkurnar máttu ekki ganga í skóla, vinna eða leika sér eins og börn. Nadia lék sér í fótbolta úti í garði hjá sér, en henni var stranglega bannað að spila fótbolta á almannafæri. 

Fjölskyldan safnaði peningum til að flýja til Evrópu. Fyrst lá leiðin til Pakistans og þaðan Ítalíu, þar sem þær voru settar í jeppa sem átti að leggja af stað til London. Nokkrum dögum síðar voru þær hins vegar óvænt komnar til Danmerkur, þar sem þær enduðu í flóttamannabúðum. 

Þar gat Nadia fyrst spilað fótbolta á almannafæri með öðrum börnum. Þar vandist hún samfélagi þar sem það þótti í lagi að spila fótbolta fyrir framan annað fólk og hún fór í kjölfarið að mæta á æfingar hjá liði í nágrenninu og skömmu síðar flutti fjölskyldan í íbúð sem var lengra frá liðinu. Þegar móðir hennar tjáði félaginu að hún hefði ekki efni á að hjálpa dóttur sinni að mæta á æfingar, keypti félagið strætómiða fyrir Nadiu og hún hélt áfram að æfa fótbolta.

Hún var fljót að skara fram úr með alvöru þjálfun og eftir að hafa fengið danskan ríkisborgararétt varð hún fyrsti erlendi leikmaðurinn sem leikur með dönsku A-landsliði. Nú leikur hún með Portland Thorns, stærsta félagi Bandaríkjanna, fyrir framan 15.000 manns á hverjum heimaleik og er hún nýbúin að skora í úrslitaleik EM. 

Ásamt því að spila fótbolta er hún nálægt því að útskrifast sem læknir frá Háskólanum í Árósum og er draumur hennar að vinna sem skurðlæknir. Nadia Nadim og Dagný Brynjarsdóttir eru ekki bara liðsfélagar, heldur líka leigja þær líka saman. 

Nadia hefur leikið 71 landsleik fyrir danska liðið og skorað í þeim 20 mörk. Það fyrsta kom gegn Íslandi á Algarve-mótinu árið 2009, en hún skoraði einnig gegn íslenska liðinu í vináttuleik árið 2013. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert