Ronaldo jafnaði Messi

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Cristiano Ronaldo, leikmaður Spánar- og Evrópumeistara Real Madrid, hélt áfram að slá metin í boltanum í gær þegar Real Madrid hafði betur gegn Borussia Dortmund, 3:2, í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Ronaldo skoraði eitt af mörkum Madridarliðsins og hann varð þar með fyrsti leikmaðurinn í sögu Meistaradeildarinnar til að skora í öllum sex leikjunum í riðlakeppninni.

Ronaldo skoraði 9 mörk í riðlakeppninni og varð markahæstur og hann jafnaði met síns aðalkeppinautar, Lionel Messi. Báðir hafa þeir skorað samtals 60 mörk í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Ronaldo er markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar frá upphafi með 115 mörk, Messi kemur næstur með 97 og í þriðja sætinu er Raúl González með 71 mark.

mbl.is