„Ótrúlegir hæfileikar“

Mohamed Salah verður í eldlínunni gegn Paris SG á Anfield ...
Mohamed Salah verður í eldlínunni gegn Paris SG á Anfield í kvöld. AFP

Leiks Liverpool og Paris SG í 1. umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu er beðið eftir með mikilli eftirvæntingu en liðin eigast við á Anfield í kvöld.

Bæði lið hafa unnið alla fimm deildarleiki sína á tímabilinu og þau skarta bæði frábærum sóknarlínum, þeim allra bestu í heimi. Liverpool með Mohamed Salah, Roberto Firmino og Sadio Mané og Parísarliðið með Neymar, Kylian Mbappe og Edison Cavani.

Neymar og Kylian Mbappe, tvær af skærustu stjörnum Paris SG.
Neymar og Kylian Mbappe, tvær af skærustu stjörnum Paris SG. AFP

Á síðustu leiktíð skoraði Salah 44 mörk í öllum keppnum, Firmino 23 og Mané 20. Hjá Paris SG skoraði Cavani 40 mörk, Neymar 26 og Mbappe 22. Líkurnar á að það verði mörk skoruð í kvöld eru því ansi miklar og kannski verður markaregn.

„Þetta á eftir að vera mjög erfiður leikur. Paris SG er eitt af bestu liðum heims svo við reiknum með mjög erfiðum en skemmtilegum leik á Anfield. Vonandi gerum við okkar besta og vinnum leikinn,“ segir Sadio Mané.

„Paris SG er eitt af sigurstranglegustu liðunum í Meistaradeildinni. Það er engin spurning með það. Þetta lið er byggt til að vinna Meistaradeildina og það eru ótrúlegir hæfileikar í því,“ segir Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.

mbl.is