Ítrekar frétt um Ronaldo og nauðgun

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Eins og mbl.is greindi frá í gær hefur umræða um meinta nauðgun Cristiano Ronaldo gegn bandarískri konu árið 2009 farið á flug á ný. Lögfræðingar kappans hóta því að lögsækja þýska blaðið Der Spiegel sem greindi fyrst frá málinu í fyrra.

Kon­an er sögð hafa kært at­vikið til lög­reglu en árið 2010 eiga hún og Ronaldo að hafa náð sam­komu­lagi um greiðslu gegn því að hún talaði aldrei um málið. Spieg­el seg­ir að Portúgal­inn hafi greitt kon­unni 42 millj­ón­ir króna og að hún hafi skrifað und­ir samn­ing þess efn­is að hún mætti ekki tjá sig um málið op­in­ber­lega.

Der Spiegel hefur nú ítrekað það að blaðið standi við fréttaflutning sinn vegna ásakana úr herbúðum Ronaldo. Blaðamaðurinn Christoph Winterbach hefur birt skjöl á Twitter sem eiga að undirstrika að ekki sé um neina falsfrétt að ræða.

„Við unnum í margar vikur í þessu máli áður en fréttin var birt. Við reyndum að tala við konuna, hún vildi það ekki, og gengum á Ronaldo en hann neitaði. Lögfræðingar Ronaldo birtu þá yfirlýsingu þar sem sagði að við hefðum ekkert í höndunum um þessi mál,“ sagði blaðamaðurinn um leið og hann birti hluta þeirra skjala sem Der Spiegel hefur undir höndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert