Holland vann Frakka og Þýskaland féll

Hollendingar fagna Georginio Wijnaldum eftir að hann kom þeim yfir ...
Hollendingar fagna Georginio Wijnaldum eftir að hann kom þeim yfir í Rotterdam í kvöld. AFP

Hollendingar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu heimsmeistara Frakka, 2:0, í Þjóðadeild UEFA í fótbolta í Rotterdam í kvöld og með því sendu þeir Þýskaland niður í B-deild keppninnar.

Georginio Wijnaldum, miðjumaður Liverpool, kom Hollendingum yfir með marki þegar ein mínúta var eftir af fyrri hálfleik. Í uppbótartíma leiksins fengu Hollendingar vítaspyrnu og úr henni skoraði Memphis Depay, 2:0.

Frakkar eru samt efstir í riðlinum með 7 stig og hafa lokið sínum leikjum en Hollendingar eru með 6 stig og Þjóðverjar eitt. Þjóðverjar og Hollendingar mætast á mánudagskvöldið og með jafntefli þar myndu Hollendingar vinna riðilinn og komast í undanúrslitin í Þjóðadeildinni.

Þýskaland, Ísland og Pólland eru fallin niður í B-deildina sem neðstu lið sinna riðla og fjórða liðið sem fellur verður annaðhvort England eða Króatía sem mætast á sunnudaginn.

Bosnía, Danmörk og Úkraína hafa tryggt sér sæti í A-deild fyrir næstu keppni og fjórða liðið verður annaðhvort Rússland eða Svíþjóð.

mbl.is