Viðar á leið í læknisskoðun hjá Hammarby

Viðar Örn Kjartansson í leik með Rostov.
Viðar Örn Kjartansson í leik með Rostov. Ljósmynd/@rostovfc

Knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson er á leiðinni í læknisskoðun hjá sænska félaginu Hammarby á næstu dögum. Expressen í Svíþjóð greinir frá í dag.

Viðar greindi frá því í samtali við Morgunblaðið í dögunum að mörg félög hefðu sýnt sér áhuga, en Hammarby virðist vera að vinna slaginn um framherjann. 

Að sögn Expressen hefur Viðar áhuga á að búa í stórri borg og er Hammarby því góður kostur, enda í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar.

Mörg félög hafa sýnt Nikola Djurdjic, framherja Hammarby, áhuga og er Viðari ætlað að fylla í það skarð sem hann skilur eftir sig. 

Sænska deildin fer af stað í byrjun apríl og er fyrsti leikur Hammarby gegn Elfsborg á útivelli þann 1. apríl. Hammarby hafnaði í fjórða sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert