Leikmenn Liverpool góðir í hollenskum sigri

Hollendingar fagna marki í kvöld.
Hollendingar fagna marki í kvöld. AFP

Holland fer vel af stað í undankeppni Evrópumóts karla í fótbolta sem fram fer á næsta ári. Hollendingar unnu sannfærandi 4:0-heimasigur á Hvíta-Rússlandi í kvöld, þar sem leikmenn Liverpool og fyrrverandi leikmaður Manchester United sáu um að skora mörkin. 

Memphis Depay skoraði fyrsta mark Hollendinga strax í byrjun leiks og Georginio Wijnaldum bætti við marki á 21. mínútu. Depay bætti við öðru marki sínu úr víti á 55. mínútu og Virgil van Dijk gulltryggði sannfærandi sigur á 86. mínútu. 

Belgar fara einnig vel af stað og unnu þeir 3:1-heimasigur á Rússlandi. Youri Tielemans kom Belgíu yfir á 14. mínútu, en Denis Tsjerishev jafnaði á 16. mínútu eftir slæm mistök Thibaut Courtois í marki Belga.

Eden Hazard kom Belgum aftur yfir úr víti í uppbótartíma fyrri hálfleiks og gulltryggði svo belgískan sigur með marki á 88. mínútu. Rússinn Aleksandr Golovin fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á síðustu mínútunni, en 3:1-sigur Belga varð raunin. 

Króatía lenti í basli með Aserbaídsjan á heimavelli. Ramil Sheydaev kom Aserbaídsjan óvænt yfir á 19. mínútu en Borna Barisic jafnaði fyrir Króatíu undir lok fyrri hálfleiks. Það var svo ekki fyrr en á 79. mínútu sem Andrej Kramaric skoraði sigurmarkið og tryggði Króatíu 2:1-sigur. 

Úrslitin í undankeppni EM í dag: 

C-riðill:
Holland - Hvíta-Rússland 4:0
Norður-Írland - Eistland 2:0
E-riðill:
Króatía - Aserbaídsjan 2:1
Slóvakía - Ungverjaland 2:0
G-riðill:
Austurríki - Pólland 0:1
Ísrael - Slóvenía 1:1
Norður-Makedónía - Lettland 3:1
I-riðill:
Kasakstan - Skotland 3:0
Kýpur - San Marínó 5:0
Belgía - Rússland 3:1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert