Mundi ekki nafnið á markmanninum sínum

Robin Olsen hefur ekki staðið undir væntingum.
Robin Olsen hefur ekki staðið undir væntingum. AFP

Ítalska knattspyrnufélagið Roma ætlar að selja sænska markmanninn Robin Olsen eftir leiktíðina, þar sem hann hefur ekki staðið undir væntingum. Olsen var keyptur til að fylla í það skarð sem Alisson skildi eftir sig er hann gekk í raðir Liverpool. 

Olsen kom til Roma fyrir tímabilið frá FC Kaupmannahöfn, en hann hefur átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni, eins og liðið sjálft. Claudio Ranieri tók við Roma fyrr í mánuðinum og stjórinn mundi ekki nafnið á markmanninum á fréttamannafundi á dögunum og lofaði hann engu um framtíð hans. 

Að sögn ítalska miðilsins La Gazzetta dello Sport ætlar Roma að taka leikmannahópinn sinn í gegn fyrir næstu leiktíð. Olsen hefur verið orðaður við félög í ensku úrvalsdeildinni, en hann er sem stendur í landsliðsverkefni með Svíþjóð. 

mbl.is