„Vinnur ekki titla án samkynhneigðra“

Megan Rapinoe
Megan Rapinoe AFP

Knattspyrnukonan Megan Rapinoe hefur heldur betur verið í umræðunni þessa daganna en hún er að eiga frábært heimsmeistaramót fyrir Bandaríkin í Frakklandi þessa daganna. Þá hefur hún einnig farið mikinn í samskiptum sínum við fjölmiðla og verið stórorð í garð Donald Trumps Bandaríkjaforseta.

Rapinoe skoraði bæði mörk Bandaríkjanna í 2:1-sigri á heimakonum í Frakklandi í gærkvöldi en ríkjandi heimsmeistararnir eru þar með komnir í undanúrslit. Rapinoe hefur átt frábært mót en hún er búin að skora fimm mörk í keppninni. Á dögunum sagðist hún ekki ætla í „fjandans Hvíta húsið,“ ef svo færi að landsliðinu yrði boðið þangað af Trump forseta.

Eftir leikinn í gær sagði hún svo að kvennalið gætu ekki náð árangri án þess að hafa samkynhneigða leikmenn um borð en Rapinoe sjálf kom út úr skápnum árið 2012, í dag er hún 33 ára.

„Þú vinnur ekki titla án samkynhneigðra leikmanna í liðinu þínu, það hefur aldrei verið gert áður, aldrei! Það er vísindaleg staðreynd,“ sagði hún sigurreif á blaðamannafundi í Frakklandi í gær.

„Hvatningin mín kemur frá fólki eins og mér, sem berst fyrir sömu hlutunum. Ég fæ meiri orku úr því en að reyna afsanna hvað aðrir segja, það dregur bara úr þér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina