Stórsigur Tyrkja í Moldóvu

Frakkar fagna marki Wissam Ben Yedder í París í kvöld.
Frakkar fagna marki Wissam Ben Yedder í París í kvöld. AFP

Tyrkir og Frakkar eru þremur stigum á undan Íslendingum í H-riðli undankeppni EM karla í knattspyrnu eftir leiki kvöldsins. 

Tyrkir fóru til Moldóvu og unnu stórsigur 4:0. Cenk Tosun skoraði tvívegis fyrir Tyrkland en hann skoraði eina markið í fyrri hálfleik. Hann gerði einnig þriðja markið á 79. mínútu. Deniz Turuc skoraði annað markið á 57. mínútu og Yusuf Yazici rak endahnútinn á gott dagsverk Tyrkja á 88. mínútu. 

Frakkland átti heimaleik gegn Andorra og sigraði 3:0 en heimsmeistararnir gátu leyft sér að brenna af vítaspyrnu. Það gerði Antoine Griezmann á 28. mínútu. Það var staðan 1:0 eftir að Kingsley Coman skoraði á 18. mínútu. Clement Lenglet kom Frökkum í 2:0 á 52. mínútu og Wissam Ben Yedder innsiglaði sigurinn á 90. mínútu. En þrátt fyrir allt ekki svo slæmar tölur fyrir smáríkið Andorra. 

Tyrkland og Frakkland eru með 15 stig og Ísland með 12 stig eftir sex umferðir. Albanía er með 9 stig og er því enn með í baráttunni eftir þessi úrslit. Moldóva er með 3 stig og Andorra án stiga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert