Lykilmaður semur við Juventus

Leonardo Bonucci verður hjá Juventus næstu árin.
Leonardo Bonucci verður hjá Juventus næstu árin. AFP

Varnarmaðurinn Leonardo Bonucci hefur framlengt samning sinn við Juventus til 2024. Leikmaðurinn gekk í raðir félagsins á síðasta ári, eftir eitt ár hjá AC Milan, en þar á undan var hann í sjö ár hjá Juventus.

Bonucci hefur leikið tæplega 400 leiki fyrir Juventus og hefur skorað 25 mörk. Bonucci mun líklega enda ferilinn hjá ítölsku meisturunum, en hann er 32 ára.

Leikmaðurinn hefur sjö sinnum orðið ítalskur meistari með Juventus og þrisvar bikarmeistari. Bonucci á tæplega 100 leiki með ítalska landsliðinu. Þá hefur hann tíu sinnum verið fyrirliði landsliðsins.

mbl.is