Lars áfram og stefnir á HM 2022

Lars Lagerbäck verður áfram landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu.
Lars Lagerbäck verður áfram landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norska knattspyrnusambandið tilkynnti fyrir stundu að Svíinn Lars Lagerbäck hefði framlengt samning sinn sem þjálfari norska karlalandsliðsins til ársins 2022.

Samningur Lagerbäcks átti að renna út eftir EM-umspilið í mars, eða eftir lokakeppni EM næsta sumar ef norska liðið næði þangað. Nýi samningurinn nær til loka undankeppninnar fyrir HM 2022, eða fram yfir lokakeppnina í Katar ef Noregur vinnur sér sæti þar.

Aðstoðarþjálfarinn Per Joar Hansen framlengdi samning sinn til sama tíma.

Lagerbäck, sem er 71 árs gamall, þjálfaði karlalandslið Íslands á árunum 2012 til 2016, fyrstu tvö árin með Heimi Hallgrímsson sem aðstoðarþjálfara og seinni tvö árin voru þeir báðir aðalþjálfarar liðsins. Ísland komst í fyrsta skipti á stórmót, EM 2016, undir hans stjórn. Svíar komust á sínum tíma fimm sinnum á stórmót með Lagerbäck við stjórnvölinn og hann stýrði Nígeríu einu sinni í lokakeppni HM.

„Það var erfitt að hafna því að halda áfram að starfa með jákvæðum vinnuveitanda, stuðningsbatteríi og leikmannahópi. Mér hefur liðið ákaflega vel sem þjálfara norska landsliðsins og hópurinn er spennandi og á góða möguleika á að halda áfram að verða betri. Markmiðið er að komast í lokakeppni EM og síðan í lokakeppni HM 2022,“ sagði Lagerbäck á vef norska knattspyrnusambandsins.

mbl.is