Við unnum besta lið í heimi

Diego Simeone var afar líflegur á hliðarlínunni hjá Atlético í …
Diego Simeone var afar líflegur á hliðarlínunni hjá Atlético í gærkvöld. AFP

Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético Madrid, segir að frammistaða liðsins í sigrinum á Evrópumeisturum Liverpool, 1:0, í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld hafi verið stórkostleg.

Saúl skoraði á þriðju mínútu og Atlético hélt fengnum hlut þrátt fyrir þunga sókn Liverpool mestallan leikinn. 

„Þetta er ekki stærsta kvöldið í okkar sögu, við unnum ekki bikar, en svona kvöldum gleymir maður aldrei. Við fengum besta lið heims í heimsókn og við unnum það,“ sagði Simeone á vef UEFA.

„Þetta var bara fyrri leikurinn og við eigum útileikinn eftir. Liverpool fékk sín tækifæri og ógnaði okkur allan tímann enda með góða menn í öllum stöðum. Besta leiðin til að fá trú á sjálfan sig er að sigra og það er okkar markmið. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir félagið.

Ég hef aldrei séð stuðningsmenn okkar svona öfluga í heilum leik. Þetta var afar tilfinningaþrunginn leikur og ég hugsaði bara um að halda ró minni. Þegar allir standa saman sem ein heild er allt hægt,“ sagði Argentínumaðurinn.

Seinni leikur liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar fer fram á Anfield 11. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert