Sara ein af þremur bestu miðjumönnum Meistaradeildarinnar

Sara Björk Gunnarsdóttir í úrslitaleik Lyon og Wolfsburg 30. ágúst.
Sara Björk Gunnarsdóttir í úrslitaleik Lyon og Wolfsburg 30. ágúst. AFP

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, var ein af þremur bestu miðjumönnunum í Meistaradeild Evrópu á nýliðnu keppnistímabili, samkvæmt kosningu á vegum UEFA.

Í kjörinu taka þátt þjálfarar liðanna í keppninni, sem og hópur fréttamanna víðsvegar að úr Evrópu.

Þeir hafa sett Söru Björk og tvo núverandi og fyrrverandi samherja hennar, Dzsenifer Marozsán hjá Lyon og Alexöndru Popp hjá Wolfsburg, í þrjú efstu sætin yfir miðjumenn Meistaradeildarinnar.

Sara lék með Wolfsburg fram að sextán liða úrslitum en síðan með Lyon og varð Evrópumeistari með franska liðinu þar sem hún skoraði í úrslitaleiknum gegn sínum gömlu samherjum í Wolfsburg.

Þann 1. október verður síðan opinberað hverjir verða valdir besti markvörður, besti varnarmaður, besti miðjumaður og besti framherji Meistaradeildarinnar 2019-20.

Þessar eru tilnefndar í heild sinni, eftir að hafa hafnað í þremur efstu sætunum í hverri stöðu í kosningunni, og eru taldar upp í stafrófsröð eftirnafna sinna:

Markverðir: Sarah Bouhaddi (Frakkland – Lyon); Christiane Endler (Síle – Paris Saint-Germain); Sandra Paños (Spánn – Barcelona)

Varnarmenn: Lucy Bronze (England – Lyon, komin til Manchester City); Lena Goessling (Þýskaland - Wolfsburg); Wendie Renard (Frakkland – Lyon)

Miðjumenn: Sara Björk Gunnarsdóttir
 (Ísland  – Lyon og Wolfsburg); Dzsenifer Marozsán (Þýskaland – Lyon); Alexandra Popp (Þýskaland – Wolfsburg)

Framherjar: Delphine Cascarino (Frakkland – Lyon); Pernille Harder (Danmörk –  Wolfsburg, komin til Chelsea); Vivianne Miedema (Holland  – Arsenal)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert