Með átján stiga forystu á toppnum

Alfons Sampsted er á góðri leið með að verða norskur …
Alfons Sampsted er á góðri leið með að verða norskur meistari á fyrsta tímabili sínu með Bodö/Glimt. Ljósmynd/Bodö/Glimt

Alfons Sampsted og félagar í Bodö/Glimt náðu í kvöld átján stiga forystu í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar þeir sigruðu Íslendingaliðið Vålerenga á heimavelli, 2:0.

Alfons lék allan leikinn sem hægri bakvörður en lið hans hefur unnið 17 leiki og  gert tvö jafntefli í 19 leikjum á tímabilinu og haft ótrúlega yfirburði í deildinni. Það er nú komið með 53 stig en næstu lið eru Rosenborg og Odd með 35 stig.

Vålerenga er með 32 stig í fimmta sætinu og átti möguleika á að ná Rosenborg og  Odd með sigri í kvöld. Viðar Örn Kjartansson lék allan leikinn með Vålerenga og Matthías Vilhjálmsson kom inn á sem varamaður á 79. mínútu.

Axel Andrésson lék allan leikinn með Viking sem vann Mjöndalen 2:1 á útivelli. Dagur Dan Þórhallsson var varamaður hjá Mjöndalen.

Jón Guðni Fjóluson lék sinn fyrsta leik með Brann og spilaði allan leikinn þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við Kristiansund á útivelli.

Davíð Kristján Ólafsson var eini Íslendingurinn sem tók þátt í leik Aalesund og Rosenborg en Rosenborg  vann þar 2:1 útisigur. Hólmar  Örn Eyjólfsson var varamaður hjá Rosenborg, Davíð lék allan leikinn með Aalesund en Hólmbert Aron Friðjónsson og Daníel Leó Grétarsson voru ekki með vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert