United þarf eitt stig í viðbót – Barcelona og Juventus áfram

Manchester United þarf aðeins eitt stig til viðbótar til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir 3:1-sigur á Basaksehir frá Tyrklandi á Old Trafford í Manchester í kvöld.

United lagði grunninn að sigrinum með góðum fyrri hálfleik því staðan í leikhléi var 3:0. Bruno Fernandes skoraði tvö fyrstu mörkin og Marcus Rashford bætti við úr víti. Deniz Turuc minnkaði muninn á 75. mínútu með marki bein úr aukaspyrnu og þar við sat.

United er með 9 stig á toppi riðilsins, þremur stigum á undan PSG og RB Leipzig eftir að franska liðið vann 1:0-sigur á því þýska. Neymar skoraði sigurmarkið úr víti strax á 11. mínútu.

Í G-riðli er Barcelona með fullt hús stiga og komið áfram í 16-liða úrslit eftir 4:0-sigur á Dynamo Kíev á útivelli. Danski framherjinn Martin Braithwaite skoraði tvö mörk fyrir Barcelona og Sergino Dest og Antoine Griezmann komust einnig á blað.

Í sama riðli þurfti Juventus að hafa fyrir 2:1-heimasigri á Ferencvarós en ungverska liðið komst yfir á 19. mínútu með marki Myrto Uzuni. Cristiano Ronaldo jafnaði á 35. mínútu og Álvaro Morata skoraði sigurmark Juventus í uppbótartíma og skaut liðinu áfram í 16-liða úrslit. 

Í F-riðli vann Borussia Dortmund 3:0-sigur á Club Brugge þar sem Erling Braut Haaland skoraði tvö mörk og Jadon Sancho eitt. Í sama riðli vann Lazio 3:1-heimasigur á Zenit Sankti Pétursborg. Ciro Immobile skoraði tvö mörk fyrir Lazio og Marco Paroli eitt. Artem Dzyuba skoraði mark Zenit. Dortmund er á toppi riðilsins með 9 stig, einu stigi á undan Lazio.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. Utd 4:1 Basaksehir opna loka
90. mín. Daniel James (Man. Utd) skorar 4:1 - United er að gulltryggja sér sigurinn og Walesverjinn skorar sitt fyrsta mark í Meistaradeildinni. Sleppur inn í gegn og sendir boltan af öryggi í fjærhornið.
mbl.is