Einföld lausn við rangstöðunni - leggjum hana niður

Myndbandsdómgæsla hefur verið mikið gagnrýnd í tengslum við ákvarðanir um …
Myndbandsdómgæsla hefur verið mikið gagnrýnd í tengslum við ákvarðanir um rangstöðu. AFP

Marco van Basten, stjarna hollenska landsliðsins í knattspyrnu, Ajax og AC Milan á árum áður, segir að lausnin á öllum vandamálunum í kringum rangstöðu og ákvörðunum myndbandsdómara sem hana varðar sé ákaflega einföld.

„Leggjum rangstöðuna alfarið niður," segir van Basten sem var að sjálfsögðu oft dæmdur rangstæður sem sóknarmaður á sínum tíma en hann skoraði 218 mörk í 280 deildaleikjum fyrir Ajax og AC Milan á árunum 1981 til 1995 og 24 mörk í 58 landsleikjum fyrir Holland. Hann var síðan landsliðsþjálfari Hollendinga frá 2004 til 2008 og síðar aðstoðarþjálfari landsliðsins.

Marco van Basten sem þjálfari Heerenveen árið 2012.
Marco van Basten sem þjálfari Heerenveen árið 2012. AFP

„Ég er enn með miklar efasemdir um rangstöðuregluna því ég er sannfærður um að hún sé ekki góð fyrir fótboltann. Ég myndi í það minnsta vilja prófa að spila þannig til að sýna að fótboltinn kæmist vel af án þennar.

Ég er sannfærður um að við fengjum betri fótbolta. Þetta er stórkostleg íþrótt en ég tel að við getum gert margt til að gera hana enn betri, einstakari, áhugaverðari og meira spennandi. Við verðum að reyna," segir van Basten við Sky Sports.

Bent hefur verið á að án rangstöðunnar yrði meira um langar sendingar og liðin myndu láta sinn fremsta mann lúra upp við vítateig mótherjanna allan tímann.

„Ef rangstöðulínan er úr sögunni mun vörnin bakka aftar á völlinn. Fullyrt er að þá myndi enginn komast í gegn því vörnin hefði alltaf áhyggjur af mótherjum sem væru fyrir aftan þá. En ef vörnin fer of aftarlega verður ringulreið í vítateignum og markmaðurinn sér ekki neitt. Liðin munu komast að því að þetta er ekki lausnin," segir Hollendingurinn.

Marco van Basten skorar sigurmark Hollands gegn Vestur-Þýskalandi í undanúrslitaleik …
Marco van Basten skorar sigurmark Hollands gegn Vestur-Þýskalandi í undanúrslitaleik EM árið 1988. Reuters

„Á hinn bóginn hefurðu alltaf þann valkost sem varnarmaður, ef engin rangstaða er til, að geta komið boltanum frá þér á samherja  sem er inni á vallarhelmingi mótherjanna. Vandamálið í dag er rangstöðureglan, og hversu miklu púðri eyðum við í að tala um hana? Ansi miklu.

Ef engin rangstaða væri til, væru vandamálin færri, og liðin myndu finna nýjar leiðir til að spila fótbolta sem væri alveg eins skemmtilegur og hann er í dag, en væri laus við þessa vondu reglu. Ég er mjög áhugasamur um þetta og það væri gaman að gera þessa tilraun. Ég er sannfærður um að fótboltinn myndi þróast upp í að verða enn skemmtilegri," segir van Basten en hann ræddi áður þessar hugmyndir þegar hann vann fyrir FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, fyrir nokkrum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert