Alfreð er ekki tilbúinn

Alfreð Finnbogason í leik með Augsburg.
Alfreð Finnbogason í leik með Augsburg. AFP

Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er ekki í leikmannahópi Augsburg fyrir leik liðsins gegn Schalke í þýsku 1. deildinni sem hefst kl. 13.30 og Heiko Herrlich þjálfari liðsins segir að hann sé ekki klár í slaginn.

Alfreð var í leikmannahópi Augsburg um síðustu helgi, án þess að spila, og var þá valinn í átján manna hóp í fyrsta sinn í níu leikjum eftir að hann meiddist í janúar.

Hann er hins vegar ekki meðal varamanna í dag. „Framfarir Alfreðs eru mjög litlar, hann tekur hæg skref í rétta átt. Það skiptir öllu máli að hann nái upp stöðugleika en hann er ekki valkostur fyrir liðið sem stendur,“ sagði Herrich á heimasíðu Augsburg.

Augsburg er í ellefta sæti af átján liðum fyrir leikinn í dag og er sjö stigum fyrir ofan umspilssæti deildarinnar. Andstæðingarnir í Schalke hafa aðeins unnið einn af 27 leikjum sínum og eru langneðstir í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert