Tvær íslenskar í hópi þeirra bestu

Glódís Perla Viggósdóttir í landsleik Íslands og Svíþjóðar.
Glódís Perla Viggósdóttir í landsleik Íslands og Svíþjóðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvær íslenskar knattspyrnukonur eru í hópi 23 bestu leikmannanna í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna sem hefst um helgina, samkvæmt úttekt netmiðilsins Fotbollskanalen.

Sérfræðingar miðilsins, Andréas Sundberg og Hanna Marklund, hafa sett upp lista með 32 bestu leikmönnum deildarinnar og þar er Glódís Perla Viggósdóttir hjá Rosengård í 20. sæti og nýliðinn Sveindís Jane Jónsdóttir hjá Kristianstad fer beint í 23. sæti þrátt fyrir að hafa aldrei spilað leik í deildinni.

Sænskar landsliðskonur raða sér meira og minna í efstu sætin og á toppnum trónir Caroline Seger, fyrirliði Rosengård og sænska landsliðsins. Á eftir henni koma Jennifer Falk, markvörður Häcken og sænska landsliðsins, og síðan Anna Anvegård og Nathalie Björn, sem báðar leika með Rosengård og sænska landsliðinu.

Sveindís Jane Jónsdóttir sækir að sænskum varnarmanni í leiknum við …
Sveindís Jane Jónsdóttir sækir að sænskum varnarmanni í leiknum við Svía síðasta haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís hefur ekki misst úr eina mínútu með Rosengård í deildinni frá því hún kom til Rosengård á miðju tímabili 2017 og um hana er sagt: „Góður varnarmaður og sterk í skallaboltunum. Mikilvæg fyrir Rosengård og líka fyrir íslenska landsliðið sem barðist við Svíþjóð um sæti á EM."

Ljóst er að við miklu er búist af Sveindísi á hennar fyrsta tímabili í atvinnumennsku en hún er í láni hjá Kristianstad frá Wolfsburg eftir að þýska félagið keypti hana af Keflavík í vetur. „Hún hrelldi Svíþjóð í undankeppni EM og var einn besti leikmaður vallarins í jafnteflisleik liðanna á Íslandi, 1:1. Bæði Gautaborg og Rosengård reyndu að fá hana en hún valdi Wolfsburg og að vera lánuð þaðan til Kristianstad. Gríðarlegt efni sem hefur hraðann sem sitt skæðasta vopn,“ segja sérfræðingar Fotbollskanalen um Sveindísi.

mbl.is