Misjafnt hlutskipti Andreu og Andreu

Andrea Mist Pálsdóttir (t.h.) í leik með FH á síðasta …
Andrea Mist Pálsdóttir (t.h.) í leik með FH á síðasta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Illa gengur hjá Andreu Mist Pálsdóttur og stöllum hennar í Växjö í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna, þar sem liðið vermir botnsætið. Hins vegar vann Kalmar, lið Andreu Thorisson, frábæran endurkomusigur í toppbaráttunni í B-deildinni þar í landi.

Växjö tapaði í dag 1:2 fyrir Hammarby þar sem öll mörkin komu í síðari hálfleik.

Í upphafi hans komst Hammarby yfir með marki frá Emiliu Larsson áður en Elin Nilsson jafnaði fyrir Växjö eftir rúmlega klukkutíma leik.

Á 71. mínútu skoraði Matilda Vinberg svo sigurmark Hammarby. Nokkrum mínútum síðar fékk Emilie Henriksen í liði Växjö sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Ekki voru skoruð fleiri mörk og Växjö situr enn sem fastast á botni úrvalsdeildarinnar með aðeins þrjú stig í 10 leikjum.

Andrea Mist kom inn á sem varamaður á 30. mínútu.

Í B-deildinni stefndi allt í að Kalmar tapaði 1:2 á heimavelli fyrir botnbaráttuliði Bollstanås.

Mörk á 84. og 89. mínútu komu hins vegar í veg fyrir það og Kalmar vann mikilvægan 3:2 sigur í toppbaráttunni, en efstu þrjú liðin fara beint upp í úrvalsdeildina.

Kalmar heldur þar með í við efstu þrjú liðin. Uppsala og Morön eru í efstu tveimur sætunum með 22 stig og þar á eftir koma Umeå og Kalmar, bæði með 20 stig, þótt Kalmar hafi að vísu spilað fleiri leiki en öll þrjú liðin fyrir ofan.

Andrea Thorisson lék nánast allan leikinn á miðju Kalmar í dag. Var hún tekin af velli á þriðju mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert