Allt þetta „kemur heim“ dæmi hvatti okkur til dáða

Leonardo Bonucci, varnarmaður Ítalíu.
Leonardo Bonucci, varnarmaður Ítalíu. AFP

Leonardo Bonucci, varnarmaður ítalska landsliðsins í knattspyrnu, stráði salti í sár Englendinga á blaðamannafundi eftir sigur Ítala í úrslitaleik Evrópumótsins á sunnudagskvöldið.

Hann sagði þar að fullyrðingar stuðningsmanna Englands um að „fótboltinn kæmi heim“ hefði hvatt Ítali til dáða. Sérstaklega hafi þetta orðið áberandi þegar England vann Danmörku í undanúrslitum á miðvikudeginum fyrir rúmri viku.

„Við heyrðum þetta daginn út og daginn inn, allt frá því á miðvikudagskvöldið eftir Danmerkur-leikinn, að bikarinn myndi koma heim til Lundúna,“ sagði Bonucci.

Það að fótboltinn „komi heim“ til Englands er tilvísun í vinsælt lag sem var samið fyrir EM 1996, sem fór þá fram þar í landi. Lagið ber heitið Three Lions (Football‘s Coming Home) og er flutt af Baddiel, Skinner og The Lightning Seeds.

„Það er leitt fyrir þá, en bikarinn er í raun og veru að fara í indælisflug til Rómar og þannig geta allir Ítalir á Ítalíu og víðs vegar um heiminn notið niðurstöðu keppninnar. Bikarinn er fyrir þá alla og fyrir okkur.

Við sögðum það frá fyrsta degi að við hefðum trú á því að við gætum gert þetta, fyrir alla Ítali og okkur. Í kvöld er það því rökrétt að Ítalir víðs vegar um heiminn fagni,“ sagði Bonucci.

mbl.is