„Fyrsta merkið um hamingju“

Paolo Maldini.
Paolo Maldini. AFP

Paolo Maldini, tæknilegur ráðgjafi ítalska knattspyrnufélagsins AC Milan, segir sigur ítalska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í fótbolta fyrr í mánuðinum hafa hjálpað þjóðinni og um leið slegið á fordóma fólks í garð ítalskrar knattspyrnu.

„Ítölsk knattspyrna er komin aftur á þann stað sem hún á heima á. Roberto Mancini [þjálfari landsliðsins] var stórkostlegur. Þessi sigur er fyrsta merkið um hamingju eftir svo marga erfiða mánuði,“ sagði Maldini í samtali við bandarísku útvarpsstöðina SiriusXM FC 157 og vísaði þar til kórónuveirufaraldursins.

„Ítölsk knattspyrna er komin aftur þangað sem hún hefur alltaf verið. Við skulum ekki gleyma því að við höfum unnið fjóra heimsmeistaratitla og nú tvo Evrópumeistaratitla einnig.

Sigur okkar var nauðsynlegur að því leyti að það eru miklir fordómar í garð ítalska boltans,“ bætti hann við, en ítölsk knattspyrna hefur löngum þótt einkennast fyrst og fremst af varnarleik, en frábær sóknarleikur Ítala vakti athygli á mótinu í sumar.

Maldini hrósaði svo þjálfaranum meira og leikmönnunum sömuleiðis. „Aðalstarf þjálfara er að sameina mismunandi persónuleika, ólíka einstaklinga, og Mancini gerði það frábærlega.

Ef maður hefur það í huga að hann byrjaði í kjölfar þess stórslyss sem það var að komast ekki á HM 2018 þá var þetta ekki auðvelt markmið að ná.

Ítalía bjó yfir einhverju öðruvísi, liðið kom saman með ákveðna hugmynd um samheldni og hvernig ætti að búa til hóp sem gæti verið samkeppnishæfur,“ sagði hann.

mbl.is