„Ég myndi alltaf vilja spila við hlið hans“

Paul Pogba og Aurélien Tchouaméni hafa leikið saman á miðju …
Paul Pogba og Aurélien Tchouaméni hafa leikið saman á miðju franska landsliðsins undanfarið. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United og franska landsliðsins, er yfir sig hrifnn af liðsfélaga sínum hjá Frakklandi, Aurélien Tchouaméni, miðjumanni Monaco.

Hinn 21. árs gamli Tchouaméni leysti N‘Golo Kanté, sem er frá vegna meiðsla, af á miðju Frakklands í landsleikjaglugganum sem lýkur brátt og stóð sig afar vel.

„Hann er mjög, mjög góður. Hann er ekki strákur, hann er karlmaður. Það er sönn ánægja að spila við hlið hans.

Hann kemur með gífurlega mikla orku og býr yfir stórkostlegri tæknilegri og líkamlegri getu,“ sagði Pogba í samtali við RTL.

Þeir léku saman á miðsvæði Frakklands gegn Belgíu í undanúrslitum Þjóðadeildar Evrópu gegn Belgíu og einnig í úrslitaleiknum gegn Spáni.

Pogba segist njóta þess svo að spila með Tchouaméni að hann vilji ávallt spila við hlið hans. „Við vonumst eftir því að hann spili fjölda leikja til viðbótar og ég myndi alltaf vilja vera honum við hlið.“

Líkast til á Pogba einungis við að spila með honum með franska landsliðinu en ekki er loku fyrir það skotið að hann myndi vilja að Man United bæri víurnar í Tchouaméni, sem er öflugur varnarsinnaður miðjumaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert