Haaland lengi frá keppni?

Erling Haaland.
Erling Haaland. AFP

Horfur eru á að norski knattspyrnumaðurinn Erling Haaland  geti ekki leikið meira með Borussia Dortmund í Þýskalandi eða landsliði Noregs fyrr en eftir áramótin.

Hann er frá keppni vegna meiðsla og Dortmund skýrði frá því á föstudaginn að hann hefði meiðst í annað sinn á skömmum tíma en gaf ekki út neitt um hvenær markaskorarinn væri væntanlegur inn á völlinn á ný. Hann mun glíma við meiðsli í læri.

Bild greinir frá því að útlit sé fyrir að um aðvarleg meiðsli sé að ræða og vísaði til þess að Jan Åge Fjörtoft, fyrrverandi landsliðsmaður Noregs og leikmaður Frankfurt á árum áður, sem væri mikill vinur Haaland-fjölskyldunnar, hefði sagt í norsku sjónvarpi að líklega hefði leikurinn við Ajax á dögunum verið hans síðasti leikur á þessu ári.

Haaland, sem er 21 árs gamall, hefur skorað 49 mörk í 49 leikjum Dortmund í efstu deild, þar af níu mörk í sex leikjum á þessu tímabili, og 12 mörk í fyrstu 15 landsleikjum sínum fyrir Noreg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert