Alisson rekinn tvisvar af velli en fékk að ljúka leik

Alisson Becker brýtur á Enner Valencia, leikmanni Ekvador, í leiknum …
Alisson Becker brýtur á Enner Valencia, leikmanni Ekvador, í leiknum í kvöld. Hann fékk rauða spjaldið fyrir þetta brot en það var síðan afturkallað og hann fékk gula spjaldið í staðinn AFP

Ekvador fékk í kvöld dýrmætt stig í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu þegar liðið gerði jafntefli við Brasilíumenn á heimavelli sínum í Quito, 1:1, í leik þar sem mikið gekk á.

Brasilía hefur þegar tryggt sér sæti á HM með talsverðum yfirburðum en þetta þriðja jafntefli liðsins í fjórtán leikjum og hinir hafa unnist. Brasilía með 36 stig og Argentína með 29 eru komin áfram en hatrömm barátta er um hin sætin.

Ekvador er með 24 stig í þriðja sætinu og stendur mjög vel að vígi en þessa dagana er verið að leika 15. umferð af 18. Fjögur efstu liðin fara á HM og fimmta liðið fer í umspil.

Kólumbía með 17 stig Perú með 17, Síle með 16, Úrúgvæ með 16, Bólivía með 15 og Paragvæ með 13 eru öll í hörðum slag um að komast beint á HM eða í umspil. Paragvæ og Úrúgvæ mætast í nótt og einnig Síle og Argentína.

Mikið gekk á í leiknum í Quito í kvöld. Casemiro kom Brasilíu yfir strax á 6. mínútu og tíu mínútum síðar fékk ekvadorski markvörðurinn Alexander Dominguez rauða spjaldið. En fimm mínútum eftir það var orðið jafnt í liðum því á 20. mínútu fékk Emerson Royal, leikmaður Brasilíu, sitt annað gula spjald og þar með það rauða.

Og rauða spjaldið fór á loft í þriðja sinn á 26. mínútu. Alisson Becker, markvörður Brasilíu og Liverpool, braut þá af  sér utan vítateigs. Atvikið var skoðað lengi og eftir fimm mínútna töf á leiknum var loks ákveðið að Alisson hefði aðeins átt að fá gula spjaldið! Hann fékk því að koma aftur inn á völlinn og halda áfram leik.

Felix Torres náði að jafna metin fyrir Ekvador, 1:1, á 75. mínútu.

Í uppbótartímanum gekk mikið á og Alisson fékk þá sitt annað gula spjald og var rekinn af velli í annað sinn í leiknum. Ekvador fékk vítaspyrnu, en aftur var var löng rekistefna um atvikið og það skoðað fram og til baka. Að lokum skipti dómarinn um skoðun, taldi eftir ítarlega skoðun að Alisson hefði verið á undan sóknarmanni Ekvador í boltann og hætti við að dæma vítaspyrnuna. Um leið var rauða spjaldið á Alisson afturkallað í annað skipti.

Loksins eftir 12 mínútna uppbótartíma var hægt að flauta leikinn af.

mbl.is