Southgate: „Ég veit að ég er valtur í sessi“

Southgate ásamt Harry Kane, fyrirliða Englands eftir leik í gær.
Southgate ásamt Harry Kane, fyrirliða Englands eftir leik í gær. AFP/Marco Bertorello

Gareth Southgate kveðst fullmeðvitaður um stöðu sína sem knattspyrnuþjálfari enska landsliðsins.

England tapaði gegn Ítalíu, 1:0, í Þjóðadeildinni í gær og er fallið niður í B-deild eftir að hafa ekki unnið í fimm leikjum í röð.

Þar að auki hefur eina mark Englands í þessum fimm leikjum komið úr vítaspyrnu sem Harry Kane skoraði úr gegn Þjóðverjum í fyrri leik liðanna í Þýskalandi, en England mætir Þýskalandi á Wembley-vellinum annað kvöld.

„Ég er ekki vitlaus. Ég veit að ég verð dæmdur út frá því sem gerist á heimsmeistaramótinu,“ sagði Southgate í viðtali.

„Samningar hafa ekkert að segja í fótboltanum vegna þess að þjálfarar geta verið á þriggja, fjögurra, fimm ára samningi en samt þurft að taka pokann sinn þegar gengið er ekki nógu gott. Hví ætti það að vera öðruvísi með mig? Ég er nógu ekki hrokafullur til þess að halda að samningurinn verndi mig á nokkurn hátt,“ bætti Southgate við.

„Getum ekki keypt leikmenn“

Southgate sagði einnig að allir þyrftu að vera samtaka og það skipti ekki öllu hvað yrði um hann, heldur liðið í heild. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að þráast við leikkerfi þar sem þrír varnarmenn spila saman í öftustu línu og að það bitni á sköpunarkrafti liðsins.

Southgate benti þá á að hann gæti ekki keypt eða fengið leikmenn á láni heldur þyrfti að moða eitthvað úr því sem honum stæði til boða og minntist á Joshua Kimmich, leikmann Þýskalands, í því samhengi, en Southgate telur engan leikmann Englands jafnoka hans.

„Hvað varðar leikmenn þá getum við ekki keypt neinn og verðum að reyna að notast við þá leikmenn sem við höfum. Við reynum að gera það með því að finna mismunandi leiðir til að spila út úr vörninni og kemur það í stað skapandi miðjumanns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert