Vill binda enda á titlaþurrð United

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP/Glyn Kirk

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, kveðst staðráðinn í að binda enda á sex ára titlaþurrð liðsins á yfirstandandi tímabili.

Um er að ræða lengstu titlaþurrð liðsins í 40 ár en síðasti titill sem Man. United vann var Evrópudeildin vorið 2017. Á árunum 1977 til 1983 upplifðu Rauðu djöflarnir sex ára titlaþurrð.

„Þetta er besta tilfinning sem til er. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna nokkra titla og það er stórkostlegt, sérstaklega fyrir stuðningsmenn.

Það er alveg frábært og ég held að stuðningsmenn okkar hafi nokkra reynslu af því, sérstaklega þeir sem eldri eru.

En nú um stundir er Manchester United ekki að vinna titla og það er of langt síðan síðast. Okkur er kunnugt um það og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að vinna titil,“ sagði ten Hag á blaðamannafundi í dag.

Liðið mætir Nottingham Forest á útivelli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins annað kvöld.

Manchester United er enn inni í öllum fjórum keppnunum sem það tekur þátt í á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert