Skoraði fjögur en fær ekki að mæta Íslandi

Omri Gandelman fagnar einu af fjórum mörkum sínum gegn Charleroi.
Omri Gandelman fagnar einu af fjórum mörkum sínum gegn Charleroi. AFP/Jasper Jacobs

Ísraelsmaðurinn Omri Gandelman sló heldur betur í gegn með Gent í belgísku A-deildinni í knattspyrnu um síðustu helgi.

Hann kom inn á sem varamaður gegn Charleroi þegar hálftími var liðinn af leiknum og staðan 1:0 fyrir Gent. Gandelman fór algjörlega á kostum og skoraði fjögur mörk á 26 mínútna kafla og lokatölur urðu 5:0 fyrir Gent.

Gandelman er 23 ára miðjumaður og lék einmitt báða leiki Gent gegn Breiðabliki í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í vetur þar sem hann skoraði í þeim fyrri, í 5:0-sigri Gent.

Mbl.is forvitnaðist hjá ísraelskum kollega um hvernig stæði á því að Gandelman væri ekki í landsliðshópi Ísraels fyrir leikinn mikilvæga gegn Íslandi í Búdapest á fimmtudagskvöldið en hann á aðeins einn A-landsleik að baki eftir að hafa áður verið lykilmaður í 21-árs landsliði þjóðarinnar.

Svarið var stutt og laggott: „Við eigum marga betri miðjumenn en hann!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert