Klopp: Guð minn góður

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP/Darren Staples

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði liðið hafa spilað mjög illa í leiknum gegn Atalanta í fyrri leik þeirra í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gærkvöldi, sem lauk með 3:0-sigri ítalska liðsins á Anfield.

„Guð minn góður, þetta var mjög slakur leikur. Við byrjuðum mjög vel en héldum því ekki við. Áður en þeir skoruðu misstum við tökin. Við vorum út um allt og hvergi.

Miðjan var teygð hægra megin og vinstra megin, ég þekkti okkur ekki. Þetta var mjög skrítið. Á fótboltamáli skorti okkur aga þegar kom að leikskipulaginu.

Darwin [Núnez] fékk dauðafæri og við vorum óheppnir hvað Harvey [Elliott] varðar. Svo skoruðu þeir og við héldum áfram að spila upp í hendur þeirra,“ sagði Klopp á fréttamannafundi eftir leik.

Áttum skilið að tapa

Þýski stjórinn hrósaði þá Atalanta fyrir góðan sigur.

„Við spiluðum illa, áttum skilið að tapa og þurfum að horfast í augu við það núna. Strákarnir mega láta sér líða illa í kvöld en svo þurfum við að byggja okkur upp fyrir leikinn gegn Crystal Palace.

Þannig er það. Ég vil óska Atalanta til hamingju, þetta var virkilega vel gert hjá þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert