Logi heldur áfram að skína

Logi Tómasson lagði upp mark.
Logi Tómasson lagði upp mark. mbl.is/Óttar Geirsson

Knattspyrnumaðurinn Logi Tómasson byrjar tímabilið með Strömsgodset afar vel í norsku úrvalsdeildinni. Í kvöld lagði hann upp mark 3:1-sigri á nýliðum KFUM Ósló á útivelli.

Strömsgodset vann þar með annan leik sinn í deildinni í röð, en Logi skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri á Rosenborg um þarsíðustu helgi.

Logi lék allan leikinn í vinstri vængbakverði og lagði upp annað mark Strömsgodset, þegar liðið komst í 2:0 í fyrri hálfleik.

Strömsgodset er í fimmta sæti deildarinnar með 6 stig eftir þrjá leiki.

Samdi og flutti lag ársins

Auk þess að vera knattspyrnumaður er Logi fær tónlistarmaður, þar sem hann notast við listamannsnafnið Luigi.

Samdi Logi og flutti lagið Skína ásamt Prettyboitjokkó, fyrrverandi knattspyrnumanninum Patrik Atlasyni, sem var útnefnt besta lag ársins 2023 á Íslensku tónlistarverðlaununum í síðasta mánuði í flokki popps, rokks, hipphopps og raftónlistar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert