Miklir möguleikar fyrir hendi hjá AB

Jóhannes Karl Guðjónsson á heimavelli AB í Kaupmannahöfn.
Jóhannes Karl Guðjónsson á heimavelli AB í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/AB

Jóhannes Karl Guðjónsson kveðst vera afar ánægður með að fá tækifæri sem þjálfari danska knattspyrnuliðsins AB en hann var kynntur til leiks þar í dag, ásamt því sem hann steig frá borði sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Íslands.

„Ég er ánægður með að fá þetta tækifæri og er  stoltur af því að verða yfirþjálfari hjá frægu félagi í danskri fótboltasögu sem á ástríðufullt stuðningsfólk. Hjá AB eru miklir möguleikar fyrir hendi, utan vallar sem innan, og félagið hefur þegar hafið undirbúning fyrir næsta keppnistímabil þar sem stefnt er að góðum árangri," segir Jóhannes Karl á heimasíðu AB.

„Mín hugmyndafræði í fótboltanum og minn metnaður eru á sama stigi og hjá forystufólki félagsins. Ég hlakka til að hefja störf, vinna með leikmönnunum, hitta stuðningsfólkið og hjálpa til við að ná markmiðum félagsins," segir Jóhannes Karl.

Sofie Brandi Petersen, framkvæmdastjóri AB, segir að félagið hafi farið í vandlega leit að nýjum þjálfara og Jóhannes hafi verið fyrsti kostur. „Við hlökkum til samstarfsins með honum, hann er góður leiðtogi, vinnufélagi og fulltrúi félagsins, og hans gildi eru þau sömu og okkar," segir Petersen á heimasíðu AB.

AB er frá Gladsaxe, 70 þúsund manna hverfi í útjaðri Kaupmannahafnar. Félagið hefur níu sinnum orðið danskur meistari, síðast 1967, og varð bikarmeistari árið 1999 en hefur ekki leikið í úrvalsdeildinni frá árinu 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert