Sveindís varð aftur fyrir fólskubroti

Sveindís Jane Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sveindís Jane Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sveindís Jane Jónsdóttir, lykilmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, fór meidd af velli eftir fólskulegt brot mótherja í leik Wolfsburg og Essen í lokaumferð þýsku 1. deildarinnar í dag.

Sveindís Jane slapp ein í gegn á 20. mínútu, ætlaði að fara framhjá Sophiu Winkler í marki Essen. Winkler tæklaði hana harkalega í hnéð og/eða lærið og fékk fyrir vikið beint rautt spjald.

Ekki er langt síðan landsliðskonan meiddist illa á öxl í landsleik gegn Þýskalandi.

Í dag virtist Sveindís Jane sárþjáð er hún lá í grasinu en eftir að kallað var eftir börum inn á völlinn gat Sveindís Jane gengið sjálf af velli, döpur á svip.

Íslenska landsliðið á fyrir höndum mikilvæga leiki gegn Austurríki í undankeppni EM 2025 og yrði það mikið áfall fyrir alla hlutaðeigandi fari svo að Sveindís Jane sé alvarlega meidd.

Wolfsburg vann leikinn örugglega, 6:0, og hafnar í öðru sæti.

Misjafnt hlutskipti Íslendinganna

Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni í lokaumferð deildarinnar í dag.

Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn sem fyrirliði í vörn Bayern München í 4:1 útisigri á Hoffenheim.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir var ekki í leikmannahópi Bayern, sem vann deildina annað árið í röð.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lék fyrri hálfleikinn í 2:3-tapi Bayer Leverkusen fyrir Werder Bremen.

Leverkusen hafnaði í sjötta sæti.

Nürnberg lagði þá Duisburg, 2:1, í botnslag.

Selma Sól Magnúsdóttir lék fyrstu 73 mínúturnar fyrir Nürnberg og Ingibjörg Sigurðardóttir fyrstu 77 mínúturnar fyrir Duisburg.

Bæði lið voru þegar fallin niður í B-deild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert