Ríkissjóður er í betri færum en áður

Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson. mbl.is/Freyja

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, telur að samningur sem var undirritaður í dag til næstu þriggja ára vegna stóraukins fjármagns ríkissins til afreksíþróta á Íslandi sé mjög jákvæður. Styrkja þurfi íslenska afreksíþróttamenn.

„Ég er mjög ánægður með samninginn. Hann hefur verið lengi í undirbúningi, síðan 2014. Niðurstaðan er feykilega jákvæð fyrir íþróttastarfið í landinu og við þurfum svo sannarlega að styðja við og styrkja afreksfólkið okkar,“ sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra í samtali við mbl.is eftir undirritun samningsins í dag.

Fram­lag ríkissins til ÍSÍ mun hækka í áföng­um úr 100 millj­ón­um á fjár­lög­um síðasta árs í 400 millj­ón­ir á næstu þrem­ur árum og er því um fjór­föld­un að ræða.

„Það er ekki bara að æskan og ungmennin okkar fái jákvæð skilaboð heldur nýtur samfélagið allt þess þegar okkar íþróttamenn standa sig vel. Það minnir okkur á að þrátt fyrir að við erum fámenn þjóð þá getur okkar íþróttafólk náð árangri. Staðið til jafns við fólk frá stórum og fjölmönnum þjóðum. Það er mjög jákvætt að þau skilaboð komi sterkt inn í samfélagið,“ sagði Illugi þegar hann var spurður um mikilvægi góðs árangurs íþróttafólks.

Fullviss um pólitíska samstöðu vegna þessara mála

Ráðherrann hefur ekki miklar áhyggjur af því að málið eigi eftir að málið eigi eftir að mæta mikilli mótstöðu í þinginu. „Nú er það þannig að í fjárlagatillögum vegna fjárlagafrumvarps ársins 2017 er gert ráð fyrir því að sjóðurinn fari úr 100 milljónum í 200, þannig að við erum nú þegar búin að festa það inn. Ég er algjörlega sannfærður um að þegar kemur til áranna 2018 og 2019 þá verði þetta verkefni klárað. Ég er þess fullviss að það er pólitísk samstaða um mikilvægi þessara mála. Ríkissjóður er í betri færum en áður og það væru engin rök fyrir því, nema eitthvað hér fari skelfilegt úrskeiðis auðvitað, að menn geti ekki klára þetta verkefni.“

Illugi blés einnig á þær vangaveltur blaðamannsins að það væri verið að nota tækifærið til að undirrita samninginn rétt fyrir þingkosningar, sem verða að öllum líkindum í haust

 „Alls ekki. Þegar þessi vinna fór af stað þá lá ekki fyrir að það yrði kosið í haust, þá stóð til að kjósa að vori 2017. Ég hefði jafnvel kosið að klára þetta fyrr en það var vandað til verka. Það er ekki verið að tjalda til einnar nætur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina