Norðfirðingar mæta í Fagralund í kvöld

Bikarmeistarar KA mæta Aftureldingu á morgun.
Bikarmeistarar KA mæta Aftureldingu á morgun. mbl.is/Hari

Undanúrslitin á Íslandsmóti karla í blaki hefjast í kvöld þegar HK fær Þrótt frá Neskaupstað í heimsókn en viðureign liðanna fer fram í Fagralundi í Kópavogi og hefst klukkan 20.00.

HK endaði í öðru sæti Mizuno-deildarinnar í vetur með 29 stig en Þróttur í þriðja sætinu með 21 stig. Liðin voru hnífjöfn í innbyrðis viðureignum. Norðfirðingar komu fyrst í Kópavog í desember og unnu 3:1 en töpuðu 3:0 degi síðar. Liðin mættust tvisvar í Neskaupstað í febrúar og þá vann Þróttur fyrri leikinn 3:1 og HK þann síðari 3:2.

Í hinu einvíginu mæta deildarmeistarar og nýkrýndir bikarmeistarar KA liði Aftureldingar og verður fyrsti leikur þeirra á Akureyri annað kvöld.

KA vann Mizuno-deildina með nokkrum yfirburðum, fékk 41 stig og vann 13 leiki af 16. Afturelding varð hinsvegar í fimmta og neðsta sæti með aðeins fjóra sigra og 11 stig. Afturelding vann hinsvegar Stjörnuna, sem varð í fjórða sæti með 18 stig, 3:0 og 3:0 í tveimur leikjum um sæti í undanúrslitunum.

Lengri keppni hjá konunum

Úrslitakeppnin á Íslandsmóti kvenna er hafin en þar er um lengri keppni að ræða. Tvö neðstu lið Mizuno-deildar, KA og Þróttur R., heyja fyrst einvígi í þessari viku um að komast í 2. umferð sem hefst 20. mars.

Sigurliðið mætir Stjörnunni, sem varð í 3. sæti deildarinnar, og HK, sem varð í 4. sæti mætir Völsungi, sem varð í 5. sæti.

Sigurliðin í þessum einvígjum fara í undanúrslit eftir páska og mæta þar deildarmeisturum Þróttar frá Neskaupstað og Aftureldingu, sem varð í öðru sæti deildarinnar en þessi tvö lið fara beint í undanúrslitin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert