Sipponen með sigurmarkið

SR-ingurinn Alexey Yakovlev með pökkinn í leik liðanna í kvöld.
SR-ingurinn Alexey Yakovlev með pökkinn í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spilandi þjálfari Skautafélags Akureyrar, Jussi Sipponen, skoraði sigurmarkið í framlengingu þegar SA hafði betur gegn Skautafélagi Reykjavíkur 4:3 í Laugardalnum í kvöld í Hertz-deild karla í íshokkí. 

Liðin fá sitt hvort stigið fyrir jafnteflið í venjulegum leiktíma en SA fær aukastig fyrir að hafa betur í framlengingunni. Þá er leikið þar til annað liðið skorar og markið kom á fjórðu mínútu í framlengingu en Andri Már Mikaelsson átti stoðsendinguna. 

Thomas Stuart-Dant skoraði fyrsta mark leiksins fyrir SA en Richard Kovarik jafnaði fyrir SR áður en fyrsta leikhluta lauk. Styrmir Maack kom SR yfir í öðrum leikhluta, og var eini Íslendingurinn sem skoraði í leiknum, en Jordan Steger jafnaði fyrir SA. 

Steger skoraði annað mark sitt fyrir SA í síðasta leikhlutanum áður en Petr Kubos jafnaði fyrir SR og tryggði liðinu um leið eitt stig.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert