Júlían fær brons eftir svindl – „Þetta er súrsætt“

Júlían J. K. Jóhannsson setti heimsmet í réttstöðulyftu á HM.
Júlían J. K. Jóhannsson setti heimsmet í réttstöðulyftu á HM. Ljósmynd/Europowerlift­ing

„Þetta var nokkurs konar áramótagjöf,“ segir kraftlyftingakappinn Júlían J.K. Jóhannsson við mbl.is í dag, en í ljós hefur komið að hann muni að öllum líkindum verða skráður bronsverðlaunahafi á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fram fór í nóvember síðastliðinn eftir að mótherji féll á lyfjaprófi.

Júlían varð í fjórða sæti í +120 kg flokki á HM, en hann tvíbætti heimsmetið í réttstöðulyftu á mótinu þar sem hann lyfti þyngst 405 kg. Hann lyfti samanlagt 1.115 kílóum og var aðeins 20 kg frá þriðja sætinu. Volodymyr Svistunov frá Úkraínu fékk bronsið, en hann hefur hins vegar fallið á lyfjaprófi og því færist Júlían upp í þriðja sætið.

„Ég fékk þessar fregnir á gamlársdag. Þetta er súrsætt. Auðvitað er súrt að missa af því að standa á pallinum. En sætt að þeir sem svindla séu teknir,“ segir Júlían, en ekki er búið að greina frá þessu eða breyta úrslitum á heimasíðu Alþjóðakraftlyftingasambandsins. Það er hins vegar annar gagnabanki sem heldur utan um úrslit sem fullyrðir þetta í sinni skráningu. Þar er Júlían kominn upp í þriðja sætið.

„Já, ég veit ekki betur. Hann er alla vega fallinn á þessu prófi og nú held ég að fari bara í gang ferli um að senda mér verðlaunin. Þetta á allt eftir að koma betur í ljós. Sambandið hérna heima er farið í málið og er að grennslast fyrir um þetta,“ segir Júlían, sem fékk jafnframt að heyra um tíðindin frá sambandinu hér heima í dag.

Júlían J.K. Jóhannsson varð í öðru sæti á eftir Söru …
Júlían J.K. Jóhannsson varð í öðru sæti á eftir Söru Björk Gunnarsdóttur í kjöri Íþróttamanns ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Glaðvaknaði á gamlárskvöld

Júlían segist ekki hafa orðið var við lyfjamisferli í íþróttinni áður. Hann segir vissulega leiðinlegt að hafa verið rændur augnablikinu að standa á verðlaunapalli á HM og undirstrikar að um súrsæta tilfinningu sé að ræða.

„Jú, það má orða það þannig. En ég er þakklátur og ánægður að þetta skuli þó koma í ljós,“ segir Júlían, sem varð í öðru sæti í kjöri Íþróttamanns ársins sem kunngjört var 29. desember.

„Ég leit á það sem hápunktinn í lok árs, en svo frétti ég þetta á gamlársdag,“ segir Júlían. Tilviljun ein réð því þó að hann komst á snoðir um málið, áður en hann fékk svo staðfestinguna í dag.

„Ég var á æfingu á gamlársdag, var frekar þreyttur og hugsaði með mér að ég yrði bara sofnaður fyrir tíu um kvöldið. Ég var að reyna að elda og reyndi að halda mér vakandi með því að skoða þessar kraftlyftingasíður og var fyrir tilviljun að skoða úrslitin. Það kviknaði alveg á mér og ég vakti til tólf!“ segir Júlían J.K. Jóhannsson í léttum dúr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert