Júlían tvíbætti heimsmetið á HM

Júlían Jóhann Karl Jóhannsson tvíbætti heimsmetið í réttstöðulyftu á HM …
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson tvíbætti heimsmetið í réttstöðulyftu á HM í dag. Ljósmynd/europowerlifting

Júlían J.K. Jóhannsson náði vægast sagt mögnuðum árangri á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem lauk í Halmstad í Svíþjóð í dag. Júlían bætti sjö ára gamalt heimsmet í réttstöðulyftu, ekki einu sinni heldur tvisvar.

Júlían byrjaði á því að lyfta 360 kg í réttstöðu, sem var lokagrein mótsins, en í annarri lyftu sinni reyndi hann við nýtt heimsmet 398 kg. Flaug þyngdin upp og tók Júlían sér meira að segja góðan tíma til að brosa til áhorfenda áður en hann setti stöngina niður.

Í síðustu lyftunni setti hann svo 405 kg á stöngina, sem einnig fór upp og innsiglaði tvíbætingu hans á heimsmetinu. Gamla metið hafði staðið í sjö ár, en það var sett á HM í Pilsen árið 2011 þegar Bandaríkjamaðurinn Brad Gillingham lyfti 397,5 kg.

Júlían lyfti jafnframt 410 kg í hnébeygju, en best átti hann 390 kg í greininni, og 300 kg í bekkpressu. Það er jöfnun á hans besta árangri í greininni, en hann missti 310 kg tvívegis. Með réttstöðulyftunni lyfti hann því samtals 1.115 kg og er það jafnframt bæting á hans eigin árangri. Best átti hann áður 1.060 kg í samanlögðu. Árangurinn skilaði honum fjórða sæti í opnum flokki á mótinu og var hann aðeins 20 kg frá þriðja sætinu.

Rússinn Andrey Konovalov varð heimsmeistari, en hann lyfti samtals 1.252,5 kg. Hann lyfti 475 kg í hnébeygju, 377,5 kg í bekkpressu og 375 í réttstöðulyftu.

Íslendingar áttu góðu gengi að fagna á HM í Halmstad, en eins og mbl.is greindi frá í gær setti hin 17 ára gamla Sóley Margrét Jónsdóttir Norðurlandamet og Viktor Samúelsson hafnaði í 8. sæti í sínum flokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert