„Stilltum hausinn upp á nýtt“

Nýkrýndir Íslandsmeistarar KA fagna titlinum í dag.
Nýkrýndir Íslandsmeistarar KA fagna titlinum í dag. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Nei, ég er ekki að hætta“ sagði Hulda Elma Eysteinsdóttir, fyrirliði KA í blaki eftir að hún hafði lyft Íslandsmeistarabikarnum á loft fyrr í dag.

„Mig langaði að hugsa það þannig að þetta væri síðasti leikurinn minn til að „peppa“ mig sem best upp en eftir svona leik og svona tímabil þá get ég ekki sagt að þetta hafi verið sá síðasti. Það er ekki hægt að hætta þegar það er svona frábært lið hérna.“

Þetta einvígi KA og HK er búið að vera svakalegt. Þið unnuð tvo fyrstu leikina nokkuð sannfærandi en HK vann næstu tvo. Voruð þið orðnar of vissar um sigur eftir að hafa unnið tvo fyrstu leikina?

„Við vitum alveg að við erum með sterkt lið en til að vinna þetta frábæra HK-lið þá verðum við að spila vel. Það er ekki nóg að mæta bara. Ég myndi ekki segja að við höfum verið orðnar eitthvað sigurvissar en kannski urðum við kærulausar og héldum að þetta myndi gerast að sjálfu sér. Fyrstu tveir leikirnir gengu það vel. Við vorum bara slakar í þriðja leiknum og HK spilaði svo fjórða leikinn frábærlega. Þær stóðu sig líka frábærlega í þessu einvígi.“

Hver var þá lykillinn að þessum sannfærandi sigri í dag?

„Við breyttum engum áherslum en stilltum hausinn upp á nýtt. Við ákváðum að spila blak eins og við höfum gert í flestum leikjum vetrarins. Ef við náum því þá erum við svakalega gott lið. Við ákváðum að taka einn góðan leik í lokin. Við vorum að spila saman í síðasta skipti því það verða alltaf einhverjar breytingar á milli tímabila og vildum gera þetta almennilega.“

Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill þinn með KA. Hvað ertu búin að vinna marga titla?

„Ég er búin að vinna fjóra Íslandsmeistaratitla með Þrótti Neskaupstað og tvo með Þrótti Reykjavík. Ég er búin að vinna þrefalt með þremur liðum núna“ sagði kempan að lokum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert