Slapp við bann í annað sinn

Ratchanok Intanon.
Ratchanok Intanon. AFP

Ein þekktasta íþróttakona Taílands, Ratchanok Intanon, virðist sleppa betur við refsingar en margur íþróttamaðurinn. Hún hefur verið sýknuð í annað sinn á ferlinum eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. 

Intanon er bronsverðlaunahafi frá HM í badminton. Er í 5. sæti heimslistans í einliðaleik og var um tíma í efsta sæti listans. 

Clenbuterol fannst í Intanon en hún gaf þær skýringar að það hafi komið til vegna kjötneyslu á tilteknum veitingastað. Þegar í ljós komu fleiri tilfelli um sýkt kjöt frá veitingastaðnum var Intanon sýknuð. 

Intanon féll áður á lyfjaprófi en var þá leyft að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Þá fannst í henni corticosteroid og sagði hún það vera tilkomið vegna sprautu við hnémeiðslum. Var það tekið gott og gilt. 

mbl.is