Hnefaleikakappi berst fyrir lífi sínu

Patrick Day, til hægri, og Charles Conwell í hnefaleikabardaganum á …
Patrick Day, til hægri, og Charles Conwell í hnefaleikabardaganum á laugardagskvöldið. AFP

Bandaríski hnefaleikakappinn Patrick Day berst fyrir lífi sínu á spítala eftir að hann féll í dá í kjölfar rothöggs í bardaga gegn Charles Conwell á laugardagskvöldið.

Day, sem er 27 ára gamall, hlaut alvarlega áverka og gekkst undir bráðaaðgerð á heila á laugardagskvöldið eftir að hafa verið rotaður af Conwell í bardaga þeirra í veltivigt í Winstrust Arena í Chicago.

„Patrick er í dái og er í afar alvarlegu ástandi. Við kunnum að meta stuðning, bænir og boð um aðstoð frá öllum í hnefaleikasamfélaginu,“ sagði Lou DiBella, skipuleggjandi keppninnar, við fréttamenn í gærkvöld.

Það var í 10. lotunni sem Conwell náði þungu höggi á Day og dómarinn stöðvaði bardaganna þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af lotunni. Day var fluttur meðvitundarlaus í sjúkrabílinn þar sem hann fékk flog og þurfti öndunarrör á leiðinni á sjúkrahúsið.

 

 

 

mbl.is