Baltimore upp að hlið efstu liðanna

Sparkarinn Justin Tucker #9 fagnar sigurmarki sínu gegn San Francisco …
Sparkarinn Justin Tucker #9 fagnar sigurmarki sínu gegn San Francisco í gærkvöldi. AFP

Baltimore Ravens fór upp að hlið liðanna sem eru með bestan árangur í NFL-deildinni í ameríska fótboltanum en meistararnir í New England Patriots töpuðu í nótt fyrir Houston Texans. 

Baltimore vann San Francisco 49ers í stórleik gærdagsins 20:17 en aðeins var um annað tap San Francisco að ræða í fyrstu tólf leikjunum. Baltimore hefur einnig unnið tíu leiki og tapað tveimur og þykir liðið líklegt til að berjast um titilinn eftir áramótin. Á síðustu sekúndum leiksins komst Baltimore í færi til að ná í þrjú stig með því að sparka tuðrunni síðasta spölinn og stóðst Justin Tucker pressuna en hann er einstaklega öruggur í þeirri stöðu. 

Houston fór nokkuð létt með meistarana. Houston vann 28:22 og komst í 28:9 í þriðja leikhluta. New England hefur einnig unnið tíu af fyrstu tólf leikjunum.

Fjórða liðið með sama vinningshlutfall er New Orleans Saints sem vann Atlanta Falcons 26:18 á útivelli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert