Keppt á Íslandsmóti í kænusiglingum

Fjöldi skúta keppti á Íslandsmóti í kænusiglingum
Fjöldi skúta keppti á Íslandsmóti í kænusiglingum Ljósmynd/Aðsend

Í dag var keppt á Íslandsmóti í kænusiglingum í Fossvogi og Skerjafirði og verður keppninni haldið áfram um helgina. Alls eru 27 keppendur skráðir til keppni og keppt er í þremur flokkum, Optimist, Laser radial og opnum flokki.

Fyrsta daginn voru sigldar alls 4 umferðir og að þeim loknum var staðan þannig að í Optimist flokki var Hrafnkell Stefán Hannesson í fyrsta sæti en þeir Ólafur Áki Kjartansson og Högni Halldórsson jafnir í öðru til þriðja sæti. Í flokki Laser 4.7 var Þorlákur Sigurðsson efstur, en þau Daði Jó Hilmarsson og Tara Ósk Markúsdóttir jöfn í öðru til þriðja sæti. Í opna flokknum var Hólmfríður K. Gunnarsdóttir í efsta sæti eftir fyrsta daginn, Árni Friðrik Guðmundsson í öðru sæti og Aðalsteinn Jens Loftsson í því þriðja.

Á morgun, laugardag, verður keppni haldið áfram og ef allt gengur að óskum og nógu margar umferðir sigldar, fjórar umferðir, verða krýndir Íslandsmeistarar að lokinni keppni á morgun.

Siglingafélag Reykjavíkur - Brokey heldur keppnina að þessu sinni, en keppendur koma auk þess úr Ými í Kópavogi, Þyt í Hafnarfirði og Nökkva á Akureyri.

Hér má finna nánari upplýsingar um keppnina. 

Keppnin var hörð á fyrsta degi Íslandsmótsins í kænusiglingum
Keppnin var hörð á fyrsta degi Íslandsmótsins í kænusiglingum Ljósmynd/Aðsend
mbl.is