Greiðir eina evru í bætur fyrir að fjárkúga United-manninn

Martial spilar fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.
Martial spilar fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Dómstólar í Frakklandi dæmdu konu í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í dag fyrir tilraun til fjárkúgunar á Anthony Martial, sóknarmanni hjá enska fótboltaliðinu Manchester United.

Konan var einnig dæmd til að greiða Martial eina evru í miskabætur, sem er táknrænt fyrir það tjón sem hún á að hafa valdið honum.

Martial og konan byrjuðu í nokkurs konar fjarsambandi fyrir rúmlega tveimur árum, en hún taldi franska fótboltamanninum trú um að hún væri alþjóðleg fyrirsæta sem ferðaðist um heiminn. Sannleikurinn var hins vegar sá að konan lifði á atvinnuleysisbótum nálægt frönsku borginni Nancy.

Hinn franski Martial var í hópi landsliðsins sem vann sigur …
Hinn franski Martial var í hópi landsliðsins sem vann sigur á HM árið 2018. AFP

Hún sagði þau hafa skipst á afar nánum og viðkvæmum myndböndum á árunum 2018 og 2019, en eftir að Martial reyndi að binda enda á samband þeirra hafi konan hótað því að hún myndi birta allt efnið sem á milli þeirra hafði farið fengi hún ekki peningagreiðslu frá honum.

Ofan á allt saman hélt saksóknari málsins því svo fram að konan hefði svikið þá stofnun sem úthlutar atvinnuleysisbótum þar í landi, en dómari skipaði það fyrir að ýmsar lúxusvörur yrðu gerðar upptækar á heimili hennar, þar á meðal fokdýrar handtöskur og bifreið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert