Knatthús rís í Vesturbænum

Karlalið KR fagnar Íslandsmeistaratitlinum síðasta haust.
Karlalið KR fagnar Íslandsmeistaratitlinum síðasta haust. mbl.is/Hari

Borgarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudag að gengið verði til viðræðna við KR um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss á lóð félagsins í Vesturbænum í Reykjavík.

Lengi hafa verið hugmyndir uppi um byggingu slíks, en það er fyrst nú sem dregur til tíðinda.

Í ályktun meirihlutans í borginni segir að fjölnota knattspyrnuhús KR í Frostaskjóli sé eitt þeirra verkefna sem raðaðist efst í forgangsröðun íþróttamannvirkja samkvæmt skilabréfi stýrihóps um stefnu í íþróttamálum, en hún er höfð til hliðsjónar við tíu ára fjárfestingaráætlun borgarinnar.

Lagt er til í samþykktinni að gengið verði til viðræðna við KR um byggingu fjölnota knatthúss, sbr. nýtt hús ÍR í Mjódd, á grundvelli fyrri viljayfirlýsingar KR og borgarinnar. Kannaður verði vilji Seltjarnarness til samstarfs um verkefnið, samanber samstarf Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness um fimleikahús á Seltjarnarnesi.

Í tilkynningu á heimasíðu KR segir að félagið hafi undanfarin ár átt í viðræðum við borgina um uppbyggingu íþróttamannvirkja og nú sjái fyrir endann á fyrsta hluta þeirrar vinnu. Ljóst sé að með tilkomu nýs fjölnota knatthúss á KR-svæðinu verði gerbylting í allri íþróttaaðstöðu KR-inga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert