Meinað að fara inn í landið

Serbneskur stuðningsmaður bíður eftir Djokovic á flugvellinum í Melbourne.
Serbneskur stuðningsmaður bíður eftir Djokovic á flugvellinum í Melbourne. AFP

Novak Djokovic, efsti maður heimslistans í tennis og einn frægasti íþróttamaður heims, var stöðvaður af landamæravörðum við komuna til Ástralíu en þar stóð til hjá honum að taka þátt í Opna ástralska mótinu.

Djokovic er væntanlega ekki bólusettur því hann hefur ekki viljað gefa upp hvort hann sé bólusettur eða ekki. Í framhaldinu hefur verið um það fjallað að hann og
hans fólk telji að Djokovic hafi fengið undanþágu til að dvelja í Ástralíu en óbólusettum ferðamönnum er ekki hleypt inn í landið.

Novak Djokovic.
Novak Djokovic. AFP

Forsætisráðherra Ástralíu sagði í dag að slíkum undanþágum þurfi að fylgja rökstuðningur. Ef viðkomandi sé óbólusettur þurfi að gefa skýringu á því sem hafi þá eitthvað með heilsufar viðkomandi að gera.

Djokovic fundaði með starfsfólki á Melbourne flugvellinum í nokkra klukkutíma en um leið var vegabréfsáritunin könnuð. Samkvæmt því sem áströlsk yfirvöld hafa gefið upp var um galla í áritun að ræða en ekki var farið nánar út í það.

Sky Sports segir að áritunin sem Djokovic var með inn í landið heimili ekki undanþágu af læknisfræðilegum ástæðum.

Lögfræðingur Djokovic hefur þegar sagt að ákvörðuninni um að banna Djokovic að koma til Ástralíu verið áfrýjað. Ekki liggur fyrir hvort Djokovic verði snúið við eða verði í Ástralíu meðan á áfrýjunarferlinu stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert