Kristín sigraði karlana líka

Kristín Þórhallsdóttir gekk hreint til verks á Reykjavíkurleikunum í dag …
Kristín Þórhallsdóttir gekk hreint til verks á Reykjavíkurleikunum í dag og lauk keppni með 565 kg í samanlögðu, 107 stigum og sigri hvort sem litið var til kvennaflokksins eins eða allra keppenda. Hún tekur nú keppnishlé fram að HM á Möltu í sumar. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég vann RIG með 565 í „tótal“,“ segir Kristín Þórhallsdóttir, borgfirski dýralæknirinn sem kemur hvergi nálægt kraftlyftingamótum þessi misserin án þess að hlaða á sig verðlaunapeningum úr eðalmálmum, síðast á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Póllandi í desember þaðan sem hún sneri með gull, silfur og brons.

„Ég kom svo sem mjög afslöppuð inn í þetta mót, hafði engu að tapa og var ekki með neitt sérstakt „gameplan“,“ heldur Kristín áfram í samtali við mbl.is eftir mótið sem fór fram í beinu framhaldi af liðakeppni í ólympískum lyftingum en ekki var um liðakeppni að ræða í kraftlyftingunum, þar börðust viðstaddir fyrir eigin afli einu og keppt var á stigum, ekki í þyngdarflokkum.

Eins alþjóðleg og keppnin í ólympískum lyftingum fyrri hluta dags var lét einn erlendur keppandi sjá sig í kraftlyftingum, hinn norski Carl Petter Sommerseth sem fór ekki fýluferð heldur vermdi toppsætið er upp var staðið svo Norðmenn áttu góðan dag á Reykjavíkurleikunum í dag, sigruðu einnig í liðakeppninni í ólympískum lyftingum.

Skemmti sér vel

„Ég hafði þetta í hendi mér allan tímann svo ég tók áhættu og reyndi við nokkur stór stökk,“ heldur Kristín áfram en hún reyndi sig við Evrópumet í hnébeygju og samanlögðu en það met féll þó ekki í dag. „Þetta skapaði samt bara góða stemmningu og svoleiðis, það er búið að vera svolítið keppnisálag á mér, þetta er fjórða mótið á sjö mánuðum sem er mjög ört í kraftlyftingum,“ segir hún.

Þessar valkyrjur vermdu toppsætin í dag, frá vinstri Arna Ösp …
Þessar valkyrjur vermdu toppsætin í dag, frá vinstri Arna Ösp Gunnarsdóttir, Kristín og Íris Rut Jónsdóttir. Ljósmynd/Þorbjörg Matthíasdóttir

Kristín er enda á leið í hvíld frá keppni allt fram að heimsmeistaramótinu á Möltu í júní en segir ánægjuefni að hafa keppt á íslenskri grund í dag. „Þetta var ótrúlega gaman og ég skemmti mér vel, það er langt síðan ég hef keppt með stelpunum hérna heima, við vorum sjö,“ segir Kristín en í karlaflokki tóku átta keppendur á stönginni.

Hún hlaut 107 stig og fór þar með sigur af hólmi. „Ég sigraði á stigum og var líka með hæsta „tótalið“ í kvennaflokki og var með mesta stigafjölda óháð kyni, ég var líka hæst yfir karlana,“ heldur Borgfirðingurinn áfram. Þar hafið þið það.

Formaður alþjóðasambandsins á staðnum

Hún lyfti þyngst 222,5 kg í hnébeygju og reyndi við 232,5 sem hefði verið bæting á hennar eigin Evrópumeti. Stöngin fór upp en Kristín fór ekki nógu djúpt í beygjuna og fékk hana því ekki gilda. Í bekkpressu lyfti hún 120 kg og reyndi við 125 sem ekki fóru upp. Nýjar reglur Alþjóðakraftlyftingasambandsins í bekkpressu tóku gildi um áramótin sem krefja keppendur um vissa lágmarksdýft olnboga miðað við axlir í neðstu stöðu.

„Það er verið að taka út lyftur þar sem maður getur fett brjóstkassann mjög hátt upp þannig að hreyfiferillinn sé þannig að þú beygir olnbogann alveg niður þegar þú ert með stöngina á kassanum,“ útskýrir Kristín. Gaston Parage, formaður Alþjóðakraftlyftingasambandsins, kom sjálfur til landsins og annaðist dómgæslu á mótinu í dag til að reyna sig við nýju reglurnar.

Í réttstöðulyftu tók Kristín 222,5 kg, reyndi í tvígang við 242,5 og freistaði þess með því að ná nýju Evrópumeti í samanlögðu. „Hún fór upp í fyrri tilrauninni en ég missti greipina og svo var bara púðrið búið í lokatilrauninni,“ segir Kristín sem kveðst sátt eftir daginn og horfir nú fram á fimm mánaða keppnishlé, allt fram að HM í sumar, en slær þó hvergi slöku við í æfingum fram að þeirri hólmgöngu.

Efstu þrjú sæti í kvennaflokki í dag:

  1. Kristín Þórhallsdóttir
  2. Arna Ösp Gunnarsdóttir
  3. Íris Rut Jónsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert