Halla tjáir sig um framboð eftir ósigur Íslands

Halla Hrund Logadóttir í stúkunni í Wroclaw á mánudaginn.
Halla Hrund Logadóttir í stúkunni í Wroclaw á mánudaginn. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fann það þarna hvað Ísland skiptir okkur öll miklu máli,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, í samtali við mbl.is í dag.

Halla Hrund var á meðal áhorfenda á landsleik Úkraínu og Íslands í úrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2024 í Wroclaw í Póllandi í gær.

Frábær upplifin í Wroclaw

Leiknum lauk með naumum sigri Úkraínu, 2:1, en Halla Hrund gaf það í skyn í í samtali við mbl.is á Keflavíkurflugvelli á mánudagsmorgninum að ef Ísland myndi vinna leikinn þá færi hún í forsetaframboð.

„Þetta var frábær upplifun og maður finnur það mjög sterkt í svona leikjum hvað hjörtu okkar Íslendinga slá mikið í takt fyrir landið okkar og landsliðið. Úrslitin voru auðvitað mjög súr og svekkjandi en á sama tíma þá er framtíðin mjög björt hjá þessu liði.

Komandi úr orkugeiranum þá fann maður svo sannarlega orkuna í kringum allt liðið og hjá þjóðinni í kringum þennan leik. Maður fylltist miklu stolti þegar maður fylgdist með strákunum í Wroclaw og það skein í gegnum, í kringum leikinn, hvað við Íslendingur viljum landinu okkar og þjóðinni allt það besta,“ sagði Halla Hrund.

Stuðningsmenn Íslands í stúkunni í Póllandi.
Stuðningsmenn Íslands í stúkunni í Póllandi. Ljósmynd/Alex Nicodim

Hæfileikarnir við frostmark

Halla Hrund er uppalin hjá Fylki í Árbænum og fótboltaáhuginn á sér því djúpar rætur hjá henni.

„Ég komst að því frekar snemma að ef hitastig væri einhverskonar mælikvarði á hæfileika í knattspyrnu þá væru hæfileikar mínir við frostmark. Ég fékk viðurkenningu fyrir áhuga og ástundun í knattspyrnuskóla Fylkis á mínum yngri árum en meira var það nú ekki og þar með lauk mínum fótboltaferli.

Fótbolti er samt stórkostleg íþrótt og mér finnst hún fanga vel bæði baráttuþrek og ósérhlífni okkar Íslendinga. Hann dregur fram það besta í okkur og hann er ákveðið lím líka í samfélaginu. Margir eiginleikar fótboltans hafa nýst mér vel í mínu starfi í gegnum tíðina. Föðurbróðir minn var fyrirliði Fylkis á sínum tíma og maður elti liðið út um allar trissur.

Fyrir mér er fótboltinn líka eitthvað sem sameinar fólk almennt. Ég fékk tækifæri til þess að hitta utanríkisráðherra Argentínu á sínum tíma og ég gaf honum áritaða mynd af Hannesi Halldórssyni, þar sem Hannes var að verja vítaspyrnu frá sjálfum Lionel Messi á HM í Rússlandi árið 2018. Þetta vakti upp mikla kátínu og þetta er eitthvað sem allir tengja við að mínu mati.“

Það var mikil stemning í Wroclaw.
Það var mikil stemning í Wroclaw. Ljósmynd/Alex Nicodim

Andar að sér sveitaloftinu

En ætlar Halla í forsetaframboð þrátt fyrir ósigur Íslands?

„Við skulum orða það þannig að ég fer full af innblæstri inn í páskana í það minnsta. Ég hvatti liðið af innlifun í Póllandi ásamt fjölda stuðningsmanna íslenska liðsins og maður yfirgaf Pólland full af þjóðarstolti. Ég er á leið austur um páskana ásamt fjölskyldunni þaðan sem áskorunin um að bjóða sig fram til embættis forseta kom fyrst fram.

Það er alltaf talað um það að liggja undir feldi þegar stórar ákvarðanir eru teknar en ég ætla frekar að anda að mér fersku sveitalofti. Ég er ótrúlega þakklát fyrir stuðninginn og hvatninguna sem ég hef fengið undanfarna daga og það er mikill heiður að vera orðuð við þetta risastóra embætti. Mestu máli skiptir að gera gagn fyrir land og þjóð og ég mun taka ákvörðun fljótlega eftir páska með framhaldið,“ sagði Halla Hrund í samtali við mbl.is.

Halla Hrund ræðir við mbl.is á Keflavíkurflugvelli.
Halla Hrund ræðir við mbl.is á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Brynjólfur Löve
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert