Guðrún Brá af öryggi áfram á lokamótið

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, kylfingur úr GR, er komin áfram á lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina í golfi eftir að hafa hafnað í fjórða sæti á 1. stigs úrtökumóti sem lauk í Marokkó í dag.

Guðrún Brá lék lokahringinn í dag á einu höggi yfir pari vallarins og endaði samtals á einu höggi undir pari sem skilaði henni fjórða sætinu. Alls komust 27 kylfingar áfram.

Berglind Björnsdóttir reyndi einnig að komast áfram, en hún lék lokahringinn í dag á fjórum höggum yfir pari og endaði samtals á 20 höggum yfir pari. Hún var fimm höggum frá því að komast áfram.

Lokaúrtökumótið fer einnig fram í Marokkó dagana 16.-20. desember næstkomandi. Valdís Þóra Jónsdóttir var þar skráð til leiks en með frammistöðu sinni á móti í Kína þar sem hún náði þriðja sæti í morgun hefur hún þegar öðlast keppnisrétt á næsta tímabili.

mbl.is