Koepka efstur á PGA-meistaramótinu

Brooks Koepka þungt hugsi á hringnum í gær.
Brooks Koepka þungt hugsi á hringnum í gær. AFP

Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka er efstur fyrir lokadaginn á PGA-meistaramótinu í golfi, síðasta risamóti ársins hjá körlunum. Koepka á möguleika á því að vinna tvö risamót í ár. 

Koepka vann opna bandaríska meistaramótið í júní annað árið í röð og er heldur betur að stimpla sig inn sem einn allra besti kylfingur heims. 

Koepka er samtals á 12 höggum undir pari en hann lék á 66 höggum í gær. Hefur hann tveggja högga forskot á Adam Scott sem verður með honum í síðasta ráshópnum. Ástralinn hefur ekki verið í alvöru baráttu um sigur á risamóti um nokkra hríð en hann hefur leikið tvo hringi í röð á 65 höggum. Scott sigraði á Masters árið 2013 og var um tíma efsti kylfingur heimslistans árið 2014.

Spánverjinn Jon Rahm er á 9 undir pari sem og Bandaríkjamennirnir Rickie Fowler og Gary Woodland. 

Tiger Woods á möguleika á sigri ef hann verður í stuði í kvöld en hann er á samtals 8 undir pari og hefur leikið tvo hringi í röð á 66 höggum. Fleiri öflugir kylfingar eru á 8 undir pari eins og Justin Thomas og Jason Day. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert